ISL / ENG

Geðveik nýsköpun

Hátíðasal Háskóla Íslands miðvikudaginn 30. september kl. 12-13 í streymi

Fulltrúar geðforvarnaverkefnanna Hugur og heilsa og Hugrúnar fjalla um hvernig nýta má nýstárlegar leiðir og hugmyndir til að fræða og styðja ungt fólk í baráttunni við geðlægðir og geðsjúkdóma. Viðburðurinn fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands miðvikudaginn 30. september kl. 12-13. Hann verður lokaður í ljósi samfélagsaðstæðna en streymt verður frá honum á vef og samfélagsmiðlum Háskóla Íslands.

Geðheilbrigði ungs fólks hefur verið í brennidepli í samfélaginu undanfarin ár, ekki síst í kjölfar aukinnar umræðu um málið meðal ungs fólks sjálfs á samfélagsmiðlum. Þá hefur yfirstandandi kórónuveirufaraldur skapað aukna hættu á félagslegri einangrun ungmenna sem getur valdið mikilli vanlíðan, komi ekki til hjálp eða fræðsla.

Forvarnir skipta miklu máli í geðheilbrigðismálum hjá ungmennum en rannsóknir hafa leitt í ljós að allt að fjórðungur hópsins get átt við alvarlegt þunglyndi eða óyndi að stríða áður en framhaldskóla sleppir. Ungmenni sem finna fyrir einkennum geðlægðar eiga frekar á hættu en aðrir að fá aftur lotur geðlægðar síðar á lífsleiðinni. Miklu máli skiptir að hafa fjölbreyttar leiðir til þess að styðja ungmenni í þessari glímu og innan Háskóla Íslands hafa bæði starfsfólk og stúdentar lagt sitt af mörkum til aukinnar fræðslu fyrir ungt fólk um geðheilbrigði.

Eiríkur Örn Arnarson, prófessor emeritus og sérfræðingur í klíniskri sálfræði, hefur þróað forvarnarnámskeiðið Hug og heilsu (H&H) en það byggist á hugrænnar atferlismeðferðar og er ætlað að koma í veg fyrir alvarlega geðlægð hjá ungmennum sem ekki hafa greinst með hana. Rannsóknir hér á landi og erlendis hafa sýnt að það geti komið í veg fyrir þróun alvarlegrar geðlægðar eða óyndis hjá ungmennum með forstigseinkenni alvarlegrar geðlægðar. Eiríkur mun kynna verkefnið og fjalla um þær áskoranir sem fylgja hagnýtingu rannsókna.

Ragna Guðfinna Ólafsdóttir, fræðslustjóri Hugrúnar – geðfræðslufélags, mun segja frá starfi félagsins en það var stofnað árið 2016 af nemendum í hjúkrunarfræði, læknisfræði og sálfræði við Háskóla Íslands. Félagið hefur það að markmiði að fræða ungt fólk um geðheilbrigði, geðraskanir og úrræði sem því standa til boða. Fræðarar á vegum Hugrúnar úr hópi háskólanema úr HÍ, HR og HA hafa ferðast um landið og haldið geðfræðslufyrirlestra í framhaldsskólum endurgjaldslaust undanfarin ár. Þar hefur t.d. verið fjallað um kvíða, áráttu- og þráhyggjuröskun, þunglyndi, átröskun og fíkniraskanir.

Streymi frá viðburðinum: https://livestream.com/hi/events/9309514

Date

sep 30 2020

More Info

Hlekkur á event

Location

Online
Category
Hlekkur á event

Submit a Comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *